Ónafngreindur kaupandi keypti í kvöld Stradivarius-fiðlu á uppboði í New York fyrir 2,7 milljónir dala, jafnvirði nærri 180 milljóna króna. Þetta mun vera næsthæsta upphæð, sem greidd hefur verið fyrir hljóðfæri á uppboði.
Fiðlan, sem smíðuð var árið 1729, gengur undir nafninu Salómon, fyrrum Lambert. Hún var boðin upp á vegum uppboðshússins Christie's í New York. Kaupandinn vildi ekki láta nafns síns getið en umboðsmaður hans sagði, að fiðlan yrði lánuð tónlistarmönnum, sem væru hennar verðir.
Viðmiðunarverð fyrir fiðluna var 1-1,5 milljónir dala. Dýrasta fiðla sögunnar seldist á uppboði hjá Christie's í fyrra. Það var einnig Stradivarius-fiðla, sem nefnd er Hamarinn.