Frekari fréttir hafa nú borist af ljósmyndafyrirsætustörfum bandaríska leikarans Leonardo DiCaprio við Jökulsárlón en leikarinn var þar ásamt bandaríska ljósmyndaranum Annie Leibovitz á vegum tímaritsins Vanity Fair. Nú er fullyrt að ísbjarnarhúnninn Knútur verði með DiCaprio á einhverjum myndanna en Leibovitz gerði sér einmitt ferð til Berlínar, þar sem Knútur býr til að festa hann á filmu.
Umrætt eintak Vanity Fair verður helgað umhverfismálum og því þótti tilvalið að taka myndir af DiCaprio með íslenska jökla í baksýn. Svo virðist sem Knúti verði bætt inn í umhverfið með stafrænum hætti.
Meðal annarra stjarna, sem prýða blaðið, eru Robert Redford og Julia Louis-Dreyfus, en þau hafa eins og DiCaprio látið umhverfismál til sín taka.