Fyrir tveimur árum fundust vestur í Ameríku áður óþekkt málverk, sem litu út fyrir að geta verið eftir málarann kunna Jackson Pollock. Málverkafundurinn olli töluverðu uppnámi meðal listfræðinga og hvelli, sem enn hefur ekki þagnað til fulls. Málverkin hafa verið rannsökuð í þaula af sérfræðingum, efnagreind og reyndar greind á þá allra handa máta sem þekkjast, bæði í Harvardháskóla og víðar.
Niðurstaða rannsóknanna leiddi til þess að Pollock-sérfræðingar sem áður áttu sér engin sérstök deiluefni, skiptast nú í tvær fylkingar sem eiga í hatrömmum deilum um uppruna nýfundnu málverkanna. Deilan er nú farin að bergmála inn í listheiminn og listmarkaðinn.
Ellen Landau, einn helsti sérfræðingur heims um verk Pollocks hefur sagst trúa því að fundnu verkin væru eftir hann. Nýjustu vísindarannsóknir benda þó til þess að þau séu það ekki.
Ronald Spencer lögfræðingur Pollock-Krasner stofnunarinnar hefur sagt að grunur leiki á að nokkur verk hafi verið seld öðrum listaverkamiðlurum eða -söfnurum.
Ronald Feldman hefur ekkert viljað tjá sig um kaupverð verkanna, og reyndar er óvíst hvort hann á nokkurt þeirra enn eða hvort hann hefur selt þau. Komi í ljós, að verkin séu ekki eftir Pollock, en að reynt hafi verið að selja þau sem hans verk, gæti það orðið til þess að koma listmarkaðnum í enn meira uppnám, og hugsanlega skaða orðstír málarans.