Bandaríska kvikmyndablaðið Variety fjallar í dag um Ísland sem kvikmyndaland og bendir á að nokkrar af vinsælustu kvikmyndum síðustu ára, svo sem Batman Begins, Flags of Our Fathers, Hostel og Die Another Day hafi að hluta til verið teknar upp hér á landi. Segir blaðið að Íslendingar nýti sér m.a. hrjóstrugt landslagið til að höfða til kvikmyndagerðarmanna.
Haft er eftir Kokayi Ampah, sem valdi kvikmyndatökustaði fyrir myndina Flags of Our Fathers, að svartur eldfjallasandurinn hafi gert útslagið. „Liturinn og áferðin á sandinum gerði staðinn trúverðugan. Clint (Eastwood) sagði að sandurinn líktist sandinum á Iwo Jima," er haft eftir Ampah og hann bætir við, að Íslendingar sem unnu við myndina hafi búið yfir tækniþekkingu og talað góða ensku.
Í grein Variety er fjallað um lög, sem sett voru hér um endurgreiðslu á kostnaði við kvikmyndaframleiðslu og það hafi haft sín áhrif. Þótt ekki sé sérlega ódýrt að vinna á Íslandi eigi það sama við um önnur Vestur-Evrópulönd og það sé tiltölulega stutt til Íslands frá Bandaríkjunum.
Þá segir að Fjárfestingarstofa lofi að greiða úr skrifræði og haft er eftir Einari Tómassyni, að pókersena í Flags of Our Fathers hafi verið tekin upp í vörugeymslu í Reykjavík sem útveguð var með klukkutíma fyrirvara eftir símtal við borgarstjórann í Reykjavík.
Kokayi Ampah segir að það hafi ýmsa erfiðleika í för með sér hvað Ísland sé norðarlega því nóttin sé stutt á sumrin og löng á veturna. „En sé maður leikari að vinna í fullum herklæðum er ekki verra að það sé aðeins 16 stiga hiti í ágúst."