Leikkonan unga Kirsten Dunst hefur viðurkennt að hún hafi næstum gefist upp á leiklistinni eftir tökur á Spider-Man 3. Hún segist hafa verið orðin hundleið á að leika og ákvað því að taka sér frí frá leiklistinni um tíma eftir þessa þriðju ofurhetjumynd.
„Ég var orðin svo leið á því að gefa sjálfa mig til annars fólks, ég átti ekkert orðið í lífi mínu sem var bara mitt. Þegar ég lauk myndinni þurfti ég að taka mér langt frí, ég gat ekki litið á handrit, mér var sama um leik og hef ekki unnið síðan vegna þess að það er vinnan sem hefur valdið mér mestum sársaukanum," sagði hún og viðurkenndi að stór hluti af þessu þunglyndi hefði komið til vegna lélegs gengis myndarinnar Marie Antoinette á Cannes-kvikmyndahátíðinni.
„Myndin er mér kær og því var eins og fólk traðkaði á mér þegar það talaði illa um hana."