Í Þýskalandi hefur orðið vart við svolítinn kipp í barnsfæðingum undanfarin mánuð og telja fréttaskýrendur ljóst að ástæðan fyrir því sé fótbolti. Sænskur blaðamaður hefur komist að því að á fæðingardeild Vivantes sjúkrahúsinu í Berlín hafi fæðst 11% fleiri börn í mars en á sama tíma í fyrra.
Samkvæmt frétt í Dagens Nyheter eru liðnir níu mánuðir frá því að Þýskaland vann Svíþjóð í sextán liða undanúrslitum 2-0 og gleðin sem því fylgdi veitti mörgum þýskum pörum barnalán.
Að sögn Rolf Kliche á fæðingardeildinni í Kassel er þetta ekkert ólíklegt. Hann segir að glatt fólk sé líklegra til að verða ólétt.
Sænski blaðamaðurinn rannsakaði reyndar ekki hvort færri börn hafi að sama skapi fæðst í Svíþjóð.