Ritstjórar tveggja danskra tímarita spá því, að ekki muni líða langur tími þar til Jóakim Danaprins opinberar trúlofun sína en unnusta hans, Marie Cavallier, eyddi páskunum með dönsku konungsfjölskyldunni. Konungshöllin segist hins vegar ekki vita til að slíkt standi til. Jóakim skildi við Alexöndru prinsessu árið 2005 og hún gifti sig nýlega aftur.
Talsmaður hallarinnar staðfesti hins vegar að Cavallier hefði dvalið með dönsku konungsfjölskyldunni um páskana. Cavallier er frönsk, 31 árs að aldri.
Henrik Qvortrup, aðalritstjóri Se og Hør segir að það sé tákn um velþóknun konungsfölskyldunnar, að Cavallier skyldi verða boðið þangað um páskana. Því sé öruggt að trúlofun standi fyrir dyrum. Billed Bladet er sömu skoðunar en bæði blöðin komu út í morgun.