Eiríkur Hauksson mun árita nýútkominn geisladisk í útibú SPRON í Ármúla 13a kl.14:00 á morgun föstudag. Á disknum er meðal annars að finna lagið Valentines Lost (Ég les í lófa þínum), sem er framlag Íslands í Eurovision 2007 í Helsinki. Eiríkur mun jafnframt flytja lagið við þetta tilefni og er því kjörið tækifæri fyrir alla Eurovision-aðdáendur til að komast í rétta stemmningu.
Við þetta tækifæri verður einnig kynnt samkeppni sem SPRON stendur fyrir þar sem almenningi gefst kostur á að vinna ferð með Eiríki og Eurovision-förunum til Helsinki. Vinningshafinn getur fylgst með allri keppninni og því sem fram fer baksviðs í þessari miklu tónlistarveislu.
SPRON er bakhjarl íslenska Eurovision-hóspins og mun styrkja okkar fólk með grunnstyrk upp á 1.500.000 kr., með fyrirheit um 500.000 kr. til viðbótar ef lagið kemst áfram upp úr undankeppninni 10.maí og svo aftur fyrirheit um 500.000 kr. ef lagið slær við árangri Icy hópsins frá 1986 og nær ofar en í 16. sæti í úrslitakeppninni 12. maí.
Ef íslenska lagið fer alla leið mun heildarframlag SPRON til Eurovisionh-ópsins því nema 2.500.0000 kr.
Heimasíða Eurovision-hópsins hefur verið opnuð á slóðinni www.esciceland.com en þar er að finna fréttir um Eurovision, myndefni af Eiríki Haukssyni og hópnum, spjall við Eirík, tónlist, blogg og fleira.