Bandaríski kvikmyndaleikarinn Alec Baldwin hefur beðist afsökunar á skammaryrðum sem hann lét falla um ellefu ára dóttur sína í símaskilaboðum sem lekið var í fjölmiðla í dag. Á heimasíðu leikarans segist hann iðrast þess að hafa misst stjórn á skapi sínu og að rekja megi það til þeirrar streitu sem áralöng forræðisdeila hans og fyrrum eiginkonu hans Kim Basinger hafi valdið.
"Það er að sjálfsögðu ekki gott að foreldri misst stjórn á skapi sínu við barn sitt," segir m.a. í yfirlýsingu hans. "Allir þeir sem þekkja mig persónulega vita að ég hef gengið í gegn um margt á undanförnum árum vegna forræðisdeilunnar. Allir þeir sem þekkja mig persónulega vita að ákveðnir aðilar munu gera hvað sem er til að niðurlægja mig og spilla sambandi mínu við dóttur mína."
Áður hafði lögfræðingur Baldwins lýst því yfir að hann myndi gera það sem móðir barnsins væri svo brjóstumkennilega ófær um. Þ.e. að þegja og fara þar með að dómsúrskurði.
Lögfræðingar Basinger segja ásakanir Baldwins um það að hún hafi lekið upptökunni í fjölmiðla einungis til marks um raunveruleikafirringu hans.