Fregnir herma að Katie Holmes vilji skrá dóttur sína Suri á „kaþólskunámskeið fyrir krakka“, þrátt fyrir að Tom Cruise sé dyggur fylgismaður Vísindakirkjunnar og Katie hafi sjálf snúið baki við kaþólska siðnum og gengið í Vísindakirkjuna er hún kynntist Cruise fyrir tveimur árum.
Katie ólst upp við kaþólsku, og mun hún nú hafa rætt við presta á laun um uppeldi dótturinnar. Suri er eins árs, en Katie vill að þegar hún verður eldri taki hún námskeið um kaþólska trú, að því er tímaritið Life and Style greinir frá.
Eftir að Katie kynntist Cruise bárust fréttir af því að hún hefði slitið öll tengsl við vini sína í Ohio, þar sem hún er fædd og uppalin, og sambandið við leikarann olli deilum milli hennar og foreldra hennar. En núna herma fregnir að Katie sé smám saman að tengja á ný gömul vináttubönd.
Haft er eftir heimildamanni að Katie langi til að tala við „einhverja sem eru ekki í Cruise-herbúðunum“ og sé að reyna að bæta samskiptin við fjölskyldu sína.