Íranska sendiráðið í Ósló hefur sent norska menningar- og kirkjumálaráðuneytinu bréf þar sem beðið er um að kvikmyndin „300” verði bönnuð í norskum kvikmyndahúsum. Segir í bréfinu að megintilgangur myndarinnar sé að brengla sögu íranskrar menningar og að hún sé án nokkurs vafa hluti af áróðri á heimsvísu gegn írönsku þjóðinni.
Ráðuneytið hefur þegar svarað beiðninni og bent á að það hafi ekki leyfi samkvæmt lögum til að banna sýningar á kvikmyndum, Íranar verði að fara með málið fyrir dómstóla vilji þeir aðhafast frekar.
Jon Iddeng, prófessor í fornsögu við Óslóarháskóla er þó sammála því að myndin gefi ekki rétta mynd af sögunni. Henni sé stillt upp sem baráttu góðra hvítra manna gegn austurlensku einræðisvaldi og þar sem margir hermenn kvikmyndarinnar úr röðum Persa séu grímuklæddir og líti út fyrir að vera heilaþvegnir og innantómir, þá sé ekki erfitt að tengja framsetninguna við ástand nútímans.