Indverskur dómstóll gaf í dag út handtökuskipun á hendur bandaríska leikaranum Richard Gere fyrir að kyssa indversku leikkonuna Shilpa Shetty ítrekað uppi á sviði á samkomu þar sem verið var að hvetja til aðgerða til að koma í veg fyrir útbreiðslu alnæmis.
Samkoman fór fram 15. apríl og vakti framkoma Geres mikla athygli og andúð og jafnvel mótmæli á Indlandi, aðallega af hálfu herskárra hópa Hindúa, sem töldu Gere hafa með þessu ráðist á indverska menningu og niðurlægt Shetty.
Í handtökuskipuninni, sem dómstóll í Jaipur gaf út í dag, segir að Gere hafi gerst sekur um ósiðlega framkomu á almannafæri. Mun lögmaður í borginni hafa lagt fram kæru á hendur leikaranum.