Eitthundrað og fimmtíu listmunir verða boðnir upp á listmunauppboði Gallerís Foldar sem fram fer á sunnudaginn. Um er að ræða verk eftir marga af merkustu listamönnum þjóðarinnar, t.a.m. Jóhannes S. Kjarval, Ásgrím Jónsson og Nínu Tryggvadóttur. Þá verður einnig hægt að bjóða í verk eftir bandaríska listamanninn Andy Warhol.
Tryggvi P. Friðriksson, listmunasali og annar eigandi Gallerís Foldar, sagði í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins finna fyrir mikilli uppsveiflu í sölu á málverkum. Fólk vilji hafa falleg og skemmtileg listaverk í kringum sig. Aðspurður segir hann marga vera reiðubúna til þess að greiða háar fjárhæðir fyrir verkin.
Sem dæmi má nefna eru dýrustu verkin á listmunauppboðinu metin á 5 til 6 milljónir kr. Þau ódýrustu eru aftur á móti metin á 5 til 10 þúsund kr.
Tryggvi segir að vel hafi gengið að fá verk á uppboðið en erfiðlega hafi gengið að fá það sem hann kallar „afbragðsverk“.
Hann segist hafa fundið fyrir miklum áhuga meðal fólks á uppboðinu bæði hér á Íslandi sem og erlendis, og eru margir farnir að nýta sér netið til þess að kaupa verkin. Aðallega er þá um íslenska kaupendur að ræða að sögn Tryggva.
Listmunauppboðið hefst kl. 18:45 á sunnudag og fer fram í Súlnasal Hótel Sögu.
Hægt er að kynna sér verkin nánar á vef Gallerís Foldar auk þess sem það er hægt að líta þar við í dag og á morgun.