Hinn árlegi Fríi myndasögudagur (Free Comic Book Day) verður haldinn hátíðlegur í versluninni Nexus næstkomandi laugardag, hinn 5. maí.
Þá verða hátt í 12 þúsund myndablöð gefin gestum og gangandi en tilgangurinn er meðal annars að breiða út boðskap myndasagna. Verslunin Nexus hefur einmitt staðið vörð um hróður myndasögunnar hér á landi og selt þær í stórum stíl.
Teiknimyndasögur um Spider Man og fleiri ofurhetjur, Jóakim aðalönd, Simpson-fjölskylduna, glæpasögur og dramasögur verða meðal þess sem gefið verður næstkomandi laugardag.
Byrjað verður að gefa blöðin klukkan 14 stundvíslega og verður gefið á meðan birgðir endast.
Hinn gjafmildi dagur er nú haldinn í sjötta sinn en talið er að hátt í tvær milljónir myndasögublaða rati í hendur lesenda, þeim að kostnaðarlausu á laugardaginn kemur.