Bandaríkjamenn eru lítið eitt líklegri til að halda framhjá maka sínum en Frakkar, en þeir skammast sín líka meira fyrir það.
Japanir líta ekki á kynlíf utan hjónabands sem framhjáhald ef greitt er fyrir það, og karlmenn í Suður-Afríku segjast halda framhjá eiginkonum sínum í stað þess að taka sér aðra eða þriðju konuna.
Þetta er meðal niðurstaðna athugana bandarísku blaðakonunnar Pamelu Druckerman, sem skrifað hefur bókina „Lust in Translation: The Rules of Infidelity from Tokyo to Tennessee.“ Druckerman vann hjá Wall Street Journal, og ferðaðist víða um heim.
Í athugunum hennar kom í ljós að einungis 3,8% kvæntra Frakka viðurkenndi að hafa haldið framhjá og 2% giftra franskra kvenna. Aftur á móti viðurkenndu 3,9% kvæntra Bandaríkjamanna að hafa haldið framhjá og 3,1% þarlendra kvenna viðurkenndu framhjáhald.
Almennt voru karlar í fátækum löndum eða þar sem stjórnmálaóreiða ríkir líklegastir til framhjáhalds. Í einni könnun kom í ljós að sex prósent Bandaríkjamanna töldu framhjáhald réttlætanlegt undir öllum eða tilteknum kringumstæðum, en hátt í 40% Rússa sögðust ekki telja neitt rangt við að halda framhjá.