Um helgina fóru fram tvær æfingar á Valentine Lost, framlagi Eiríks Haukssonar og félaga fyrir hönd íslensku þjóðarinnar í Helsinki. Blaðamannafundirnir að þeim loknum voru afar fjölmennir og voru allar góðar spurningar verðlaunaðar með íslensku góðgæti, harðfiski, ópal og litlum grænum flöskum.
Um innihald textans sagði Eiríkur hann fjalla um listamann sem er að ganga í gegnum erfitt tímabil, eitthvað sem hann þekkti af eigin raun frá fyrri tíð. Aðspurður kvaðst hann ánægður með að hafa snúið sér að rokkinu í ár, fyrri framlög hans hafi verið popplög, þetta væri miklu frekar hans stíll. Eiríkur bætti við að keppnin nú væri gjörólík þeim sem hann hefði áður tekið þátt í. Lögin eru fjölbreyttari en áður en hér má finna blús frá Ungverjalandi, diskó frá Belgíu og þungarokk frá Tékklandi. Að loknum spurningum í gær tóku menn svo lagið. Fyrst Valentine Lost órafmagnað á spænsku, íslensku og tyrknesku og síðan brot úr Gleðibankanum við gríðarlegt lófatak viðstaddra.
Nánar er fjallað um Eurovision í Morgunblaðinu í dag.