Að loknu tveggja daga æfingahléi íslenska hópsins er komið að aðalæfingum fyrir undanúrslitakeppnina á morgun. Í dag verður sýningin keyrð í gegn í endanlegri mynd sinni. Allt útlit og klæðaburður verður eins og í keppninni sjálfri. Eiríkur sagði þó að lokaklæðnaðurinn yrði væntanlega ákveðinn fyrir framan spegilinn á laugardaginn.
Mikið jákvæði hefur verið í garð íslenska lagsins. Nokkur önnur rokklög eru í keppninni í ár, þar á meðal frá Finnlandi, Tékklandi og Austurríki. Eiríkur og félagar þykja af mörgum bera af í þessum flokki, sterkir flytjendur með mikla útgeislun. Hér eru engir aukvisar á ferð og þykir æ líklegra að Íslendingar stígi skrefið upp í aðalkeppnina á laugardaginn. Eiríkur sagði að það yrði sigur í sjálfu sér, þegar þangað væri komið ylti allt á smekk kjósenda.
Í gær var hið árlega norræna partí á Euroklúbbnum. Keppendurnir komu fram á sviðinu og skemmtu viðstöddum. Eiríkur Hauksson flutti Valentine Lost og Ziggy Stardust eftir David Bowie. Framlög Norðurlandaþjóðanna eru ólík, nema helst Íslendinga og Finna, viss samkeppni gæti myndast þar á milli.
Nánar er fjallað um þetta í Morgunblaðinu í dag.