Rokkhljómsveitin Singapore Sling heldur í tónleikaferðalag um Evrópu í byrjun næstu viku, en safnplata með sveitinni er að koma út þar ytra og ber hún heitið The Curse, The Life, The Blood. Sveitin mun spila í Þýskalandi, Frakklandi, Austurríki, Tékklandi og Ítalíu og er þetta fyrsta tónleikaferð sveitarinnar á þessu svæði.
Einnig munu upptökur á næstu skífu sveitarinnar hefjast í Berlín í mánuðinum. Báðar plöturnar eru gefnar út af 8MMMUSIK sem er nýtt útgáfufyrirtæki sem hefur aðsetur í Berlín. Sveitin heldur eina tónleika hér á landi áður en hún fer af stað, en þeir verða á Hressó annað kvöld, fimmtudagskvöld. Mun rafhljómsveitin, Evil Madness, hefja kvöldið, en þeir gáfu út sína fyrstu plötu, Demon Jukebox, fyrir nokkrum mánuðum.
Tónleikarnir hefjast kl. 21.30 og er aðgangur ókeypis.