Bandaríski kvikmyndaleikarinn Silvester Stallone viðurkenndi fyrir dómi í Ástralíu, að hafa verið með vaxtarhormóna í fórum sínum þegar hann kom til landsins í febrúar. Stallone var stöðvaður á flugvellinum í Sydney eftir að í ljós kom að flöskur með hormóninu Jintropin voru í farangri hans.
Stallone mætti ekki fyrir réttinn í Sydney í morgun en fyrir lá skrifleg játning. Dómur verður kveðinn upp í næstu viku en Stallone, sem er sextugur, á yfir höfði sér sekt.
Kínverska fyrirtækið CeneScience framleiðir Jintropin en virka efnið í því er Somatropin, sem sagt er draga úr líkamsfitu og auka vöðvamassa.