Paris Hilton mun ekki áfrýja 45 daga fangelsisdómi, sem hún hlaut nýlega fyrir að rjúfa skilorð sem hún var á vegna ölvunaraksturs. Þetta kemur fram í skjölum, sem lögmaður hennar lagði fyrir dómstól í Los Angeles í Kalíforníu í dag.
Samkvæmt dómnum á Paris Hilton að gefa sig fram í fangelsi fyrir 5. júní. Upphaflega gagnrýndi Paris dóminn og sagði hann óréttlátan og lögmenn hennar lýsti því yfir að honum yrði áfrýjað. Síðan hefur Paris skipt um lögmenn og nú er Richard Hutton, lögmaður hennar en Hutton hefur sérhæft sig í að verja sakborninga sem ákærðir eru fyrir ölvunarakstur.
Talsmaður lögreglustjóraembættisins í Los Angeles sagði, að Hilton muni væntanlega þurfa að dvelja í 23 daga í Century héraðsfangelsinu í Lynwooden, úthverfi Los Angeles, og þá er gert ráð fyrir því að hún fái reynslulausn vegna góðrar hegðunar.
Hilton verður aðskilin frá öðrum föngum á sérstakri deild með 12 klefum sem ætlaðir eru lögreglumönnum, embættismönnum eða frægu fólki, sem hlýtur dóma. Eins og aðrir fangar fær hún að fara út úr klefa sínum í um klukkustund á dag til að fara í sturtu, horfa á sjónvarp, stunda leikfimi og tala í síma.