Ofurstjarnan Silvía Nótt er nú á góðri leið með að verða heimsfræg, því sænska sjónvarpsstöðin TV4 hefur boðið í nýjustu þáttaröðina um poppdívuna, The Silvia Night Show. Gaukur Úlfarsson, leikstjóri þáttanna, segir að alltaf hafi staðið til að selja þættina til annarra landa.
„Þættirnir, platan og ljóðabókin, þetta er allt gert með útrás í huga, þetta er allt á ensku," segir Gaukur. "Það breytir öllu að vera kominn með eitt tilboð í hús."
TV4 er stærsta sjálfstæða sjónvarpsstöðin í Svíþjóð. „Þeir ætla að sýna þetta á besta tíma og hefja sýningar á þáttunum í haust, þ.e. ef við tökum tilboðinu," segir Gaukur. „Þáttaröðin er öll unnin út frá þátttöku Silvíu í Evróvision, það þekkja allir Evróvision og með því að taka þátt í keppninni sáum við fyrst og fremst tækifæri til þess að vinna skemmtilegt sjónvarpsefni."
Gaukur segir möguleika á því að selja þættina til fjölmargra landa, þeir hafi verið kynntir víða. „Það er alveg verið að vinna í þessu á fullu. Það eru þrjú eða fjögur önnur lönd sem hafa lofað tilboðum á næstu dögum," segir Gaukur. Búið sé að þurrausa íslenska markaðinn.