Hundurinn Leya, Yorkshire terrier í eigu portúgalska knattspyrnuþjálfarans José Mourinho, er kominn aftur til Portúgals. Mikið uppnám varð í Lundúnum í vikunni þegar lögregla kom heim til Mourinhos og vildi fjarlægja hundinn en grunur lék á að hundurinn hefði verið fluttur út úr Bretlandi og síðan aftur inn án þess að lög um sóttkví hefðu verið virt.
Lögmaður Mourinhos sagði í dag, að Leya væri nú komin aftur til Portúgals í fylgd Tami, eiginkonu José og þetta hefði gerst með fullri vitneskju og í samvinnu við bresk stjórnvöld.
„Mourinho æskir þess, að fá að einbeita sér að verkefni sínu með Chelsea á morgun án þess að vera spurður stöðugra spurninga um þetta mál, sem nú er lokið með sátt," sagði lögmaðurinn. Málið hefur verið mikið til umfjöllunar í breskum fjölmiðlum eftir að Mourinho var handtekinn fyrir að hindra störf lögreglumanna sem vildu fjarlægja hundinn.
Chelsea mætir Manchester United á morgun í úrslitaleik bresku bikarkeppninnar í knattspyrnu.