Aska leikarans James Doohan, og 200 annarra, hefur loks fundist eftir þriggja vikna leit í Nýju Mexíkó í Bandaríkjunum, en þar lentu líkamsleifarnar og hlutar geimflaugar sem flutti ösku Doohan út fyrir lofthjúp jarðar í skamma stund fyrr í mánuðinum.
Doohan var þekktur fyrir að leika geim-vélstjórann Scotty í sjónvarpsþáttum og kvikmyndum um ævintýrin sem kennd eru við Star Trek, en hann óskaði þess að aska hans yrði send út í geim að sér látnum. Eldflaugin sem flutti Doohan var sú fyrsta sem skotið var út fyrir lofthjúp jarðar en var þó aðeins í rúmar fjórar mínútur í útjaðri hans áður en hann sneri aftur til jarðar.
Fyrirtækið heppnaðist að flestu leyti vel, og lentu hlutar eldflaugarinnar nokkurn vegin þar sem til var ætlast, hins vegar gekk illa að endurheimta öskuna og leifar eldflaugarinnar þar sem veður var slæmt og hentaði fjallendið í Nýju Mexíkó illa til leitar.
Wende Doohan, ekkja leikarans, sagði þó blaðamönnum að líklega hefði eiginmaður sinn heldur viljað verða eftir í geimnum.