Nýrri heimildarmynd hins umdeilda Michael Moore, „Sicko”, var vel tekið þegar hún var frumsýnd fyrir fullum sal á kvikmyndahátíðinni í Cannes í morgun. Birta Björnsdóttir, blaðamaður Morgunblaðsins sem er á hátíðinni, segir að Moore hafi á blaðamannafundi eftir frumsýninguna sagst vona að hann hafi þegar getið sér svo gott orð fyrir myndir sínar, að hann þurfi ekki að sitja undir frekari gagnrýni um að hann fari ekki rétt með staðreyndir.
Sicko er hörð ádeila á bandaríska heilbrigðiskerfið og segir Birta að þar sé kerfið m.a. borið saman við heilbrigðiskerfi m.a. Bretlands, Frakklands og Kanada, en að hún sé mjög í anda fyrri verka kvikmyndagerðarmannsins.
Þá var Moore spurður hvers vegna hann hefði ekki sent myndina inn í keppnina um hinn eftirsótta gullpálma. Svaraði hann því að hann hefði þegar unnið til verðlaunanna, myndin fjallaði um nauðsyn þess að Bandaríkjamenn stæðu saman, og að það væri ekki í anda myndarinnar að hann tranaði sér sérstaklega fram.
Hátíðin stendur annars hvað hæst núna, Coen bræður kynna í dag nýjustu mynd sína, No Country For Old Men sem frumsýnd er á hátíðinni, en í henni leika m.a. Tommy Lee Jones, Woody Harrelson og spænski leikarinn Javier Bardem, sem þekktur er fyrir leik sinn í kvikmyndinni Mar adentro, sem hlaut Óskarsverðlaun árið 2004. Þá kynnir leikarinn Leonardo DiCaprio heimildarmyndina 11th hour, sem hann framleiðir, en hún fjallar um stöðu náttúrunnar og áhrif hlýnandi loftslags á hana.