Mikill áhugi var á blaðamannafundi, sem þau Brad Pitt og Angelina Jolie héldu í Cannes í Frakklandi í morgun en að sögn Birtu Björnsdóttur, blaðamanns Morgunblaðsins, var þetta mest sótti blaðamannafundur hingað til á kvikmyndahátíðinni í Cannes.
Þau Pitt og Jolie voru að kynna myndina A Mighty Heart, nýja mynd um hvarf bandaríska fréttmannsins Daniels Pearls í Pakistan sem fannst svo seinna látinn. Jolie leikur ekkju Daniels og Pitt er einn af framleiðendum myndarinnar.
Að sögn Birtu var gríðarlegt fjölmenni á blaðamannafundinum enda voru bæði Pitt og Jolie á staðnum ásamt ekkjunni Mariane Pearl. Birta segir að parið hafi verið bæði spurt um myndina og um hjóna- og fjölskyldulíf sitt. Birta segir að Jolie hafi sagt frá því að mikið traust og góður vinskapur milli hennar og Mariane Pearl hafi skapað grundvöll myndarinnar.