Borið hefur á mikilli gagnrýni frá tónlistarmönnum á tónlistarvefinn tonlist.is sem opnaður var með nýju viðmóti á laugardaginn. Þeir saka vefinn um að hygla sumum á kostnað annarra, auk þess sem menn séu sviknir um greiðslur.
Stefán Hjörleifsson, framkvæmdastjóri síðunnar, vísar því alfarið á bug að ákveðnum listamönnum hafi verið hyglað.
„Það er fáránlegt að við, sem þrífumst á því að vinna með útgefendum, myndum vinna með þeim hætti. Það segir sig sjálft. Það er lykilforsenda hjá okkur að starfa með öllum útgefendum og starfa í sátt við alla hagsmunaaðila. Að hygla sumum hefði jafngilt markaðslegu sjálfsmorði," segir Stefán í viðtali við Morgunblaðið í dag og neitar því líka að þeir sleppi því að greiða listamönnunum.
Nánar er fjallað um þetta í Morgunblaðinu í dag.