París Hilton verður með neyðarhnapp á sér á meðan hún dvelur í fangelsi, að því er fregnir herma, og verður þetta gert til að vernda hana fyrir hugsanlegu áreiti annarra fanga, að því er breska blaðið The Sun greinir frá. Með hnappnum getur París kallað á fangaverði allan sólarhringinn.
París verður vistuð í „sérþarfadeild“ Century-kvennafangelsisins í Los Angeles, en sú deild er fyrir lögreglumenn, opinbera embættismenn, dægurstjörnur og annað frægt fólk sem lendir í steininum.
París hlaut 45 daga fangelsisdóm fyrir skilorðsrof, en þegar hefur verið greint frá því að dvölin verði stytt í 23 daga vegna „góðrar hegðunar,“ þótt afplánunin sé ekki enn hafin. París á að mæta í fangelsið 5. júní.