Íslenska kvikmyndin Astrópía verður frumsýnd 22. ágúst næstkomandi. Astrópía er ævintýramynd, fjallar um samkvæmisstúlkuna Hildi sem fer af illri nauðsyn að vinna í búð sem sérhæfir sig í hlutverkaleikjum og hasarblöðum. Áður en varir heillast hún af ævintýraheimi hlutverkaleikja og skilin milli hans og raunveruleikans verða óskýrari og ofurhetjan vaknar.
Fyrsta sýnishornið úr myndinni var sýnt við hátíðlega athöfn í Sambíóunum við Álfabakka í gær og var kátt á hjalla eins og myndirnar bera með sér.
Gunnar B. Guðmundsson, leikstjóri Astrópíu, var afar ánægður með viðtökur sýningargesta í gær. "Þetta gekk bara mjög vel," sagði Gunnar; það ætti bæði við um tökur myndarinnar og sýninguna á sýnishorninu í gær. "Menn voru mjög ánægðir, svaka hrifnir og það er frábært," sagði Gunnar glaður í bragði.
Klippingu kvikmyndarinnar er um það bil lokið og hljóðvinnsla að hefjast. Gunnar er afar ánægður með leikarana, en með aðalhlutverk fara Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir og Davíð Þór Jónsson. Af öðrum landsþekktum leikurum má nefna Höllu Vilhjálmsdóttur, Sveppa og Pétur Jóhann Sigfússon.
Sýnishorn úr myndinni má sjá á vefsíðunni kisi.is, en Astrópía verður kynnt undir nafninu Dorks and Damsels á erlendum markaði.