Hætt hefur verið við tónleikaferð Eltons Johns um Evrópu, svokallaða Evrópuför hins rauða píanós. Til stóð að tónlistargoðið héldi tónleika í borgunum Feneyjum, Berlín, Moskvu, París og Sevilla í sumar og átti tónleikaferðin að hefjast í júní.
Eitthvert babb virðist hafa komið í bátinn og Elton mun hafa deilt við skipuleggjanda ferðarinnar.
Í tilkynningu sem talsmaður Eltons sendi út í fyrradag segir að skipuleggjandi tónleikaferðarinnar hafi ekki getað tryggt að tónleikarnir yrðu haldnir á þeim stöðum sem til stóð, og því hafi þurft að taka þá ákvörðun að hætta við.
"Við vitum auðvitað að aðdáendur Eltons verða fyrir vonbrigðum þegar þeir heyra þessar fréttir og við erum að kanna möguleikann á því að heimsækja þessar borgir brátt," segir í tilkynningunni.
Það voru engir smástaðir sem haldi átti tónleikana á, til að mynda Versalir í nágrenni Parísar og Brandenborgarhliðið í Berlín.