Ýmsir tónlistarmenn hafa gagnrýnt vefverslunina Tónlist.is fyrir að standa ekki skil á greiðslum vegna sölu á tónlist á vefsetrinu. Í ljós hefur komið að fyrirtækið hefur staðið skil á öllum greiðslum samkvæmt samningum við samtök rétthafa, en féð ekki skilað sér til tónlistarmannanna sjálfra.
Einnig er greint frá því í samantekt Árna Matthíassonar í sunnudagsblaði Morgunblaðsins, að greiðslur fyrirtækisins vegna svonefnds streymis tónlistar, þegar lög eru spiluð yfir netið, hafa ekki byggst á upplýsingum frá fyrirtækinu sjálfu heldur er miðað við skýrslur um spilun í Ríkisútvarpinu. Þar kemur og fram að öll lög sem seld eru af Tónlist.is eru þannig merkt að fyrirtækið MúsikNet eigi höfundarrétt að þeim.