Fagnað þegar tilkynnt var að gullpálminn færi til Rúmeníu

Cristian Mungiu með gullpálmann. Á myndinni eru einnig Jane Fonda, …
Cristian Mungiu með gullpálmann. Á myndinni eru einnig Jane Fonda, sem afhenti verðlaunin og dómnefndarmennirnir Charlotte Rampling and Alain Delon og Michelle Yeoch. Reuters
Eftir Birtu Björnsdóttur í Cannes
Fagnað var á göngum hátíðarhallarinnar hér í Cannes þegar Stephen Frears, formaður dómnefndar, tilkynnti að gullpálminn, aðalverðlaun kvikmyndahátíðarinnar í færi í hendur rúmenska leikstjórans Cristian Mungiu fyrir myndina 4 Luni, 3 Saptamini si 2 Zile (4 mánuðir, 3 vikur og 2 dagar). Á göngunum hímdu nefnilega blaðamenn hvaðanæva að úr heiminum og fylgdust með framvindu mála í nærliggjandi sal á sjónvarpsskjáum.

Það kom kannski ekki mikið á óvart að myndin, sem er sú þriðja úr smiðju leikstjórans, skyldi hafa staðið uppi sem sigurvegari á hátíðinni. Hún var þriðja myndin í keppninni sem sýnd var á hátíðinni og síðan þá hefur hún verið efst eða ofarlega á lista spámanna og gagnrýnenda yfir bestu myndir hátíðarinnar. Hin myndin sem einnig þótti sigurstrangleg var No Country For Old Men þeirra Coen bræðra. Þegar ekkert sást til bræðranna á rauða dreglinum fyrir lokaathöfnina þótti strax líklegt að þeir fengju ekki annan gullpálma í safnið sitt í þetta sinn.

Dómnefndin sat fyrir svörum blaðamanna um niðurstöðu sína að lokinni verðlaunaafhendingu. Frears sló á létta strengi sem áður og sagði leikkonuna Maggie Cheung (einn liðsmann dómnefndar) hafa slegið sig í andlitið þegar þau voru að reyna að komast að niðurstöðu. Hann taldi blaðamenn trúlega þreytta á að heyra því sífellt básunað hve vel samstarfið hefði gengið.

Dómnefndin var talsvert spurð út í ástæðu þess að Coen bræðra myndin skyldi ekki hafa hlotið gullpálmann og einnig hvers vegna spænski leikarinn Javier Bardem hefði ekki verið verðlaunaður fyrir leik sinn í myndinni. Frears svaraði því á einfaldan hátt: „Allar myndirnar í keppninni voru góðar og allir leikararnir stóðu sig vel.”

Tyrkneski rithöfundurinn og Nóbelsverðlaunahafinn Orhan Pamuk svaraði svo aðspurður um í hverju gæði 4 Luni, 3 Saptamini si 2 Zile væru fólgin: „Þetta er alveg ótrúlega falleg mynd og maður naut hverrar sekúndu við að horfa á hana. Við vorum næstum öll á einu máli um, að þetta væri besta mynd hátíðarinnar.”

4 Luni, 3 Saptamini si 2 Zile gerist í Rúmeníu seint á níunda áratugnum. Sagan segir frá tveimur vinkonum sem leita allra leiða til að koma annarri þeirra í ólöglega fóstureyðingu. Löng skot einkenna myndina og eru hennar aðal sjarmi auk aðalleikkonunnar, Anamaria Marinca, sem heldur myndinni uppi með mögnuðum en hófstilltum leik. Aðdráttarafl myndarinnar felst ekki síður í þeirri yfirvofandi eymd sem áhorfandinn skynjar allan tímann án þess að verið sé að velta sér uppúr því dapurlega.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Leyfðu öðrum að njóta kunnáttu þinnar en varastu allt oflæti, því fyrr en varir ert þú sá sem lærir af öðrum. Ekki hafa áhyggjur af því að þurfa að sanna þig.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Torill Thorup
2
Kathryn Hughes
3
Steindór Ívarsson
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Carla Kovach
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Leyfðu öðrum að njóta kunnáttu þinnar en varastu allt oflæti, því fyrr en varir ert þú sá sem lærir af öðrum. Ekki hafa áhyggjur af því að þurfa að sanna þig.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Torill Thorup
2
Kathryn Hughes
3
Steindór Ívarsson
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Carla Kovach