Fagnað þegar tilkynnt var að gullpálminn færi til Rúmeníu

Cristian Mungiu með gullpálmann. Á myndinni eru einnig Jane Fonda, …
Cristian Mungiu með gullpálmann. Á myndinni eru einnig Jane Fonda, sem afhenti verðlaunin og dómnefndarmennirnir Charlotte Rampling and Alain Delon og Michelle Yeoch. Reuters
Eftir Birtu Björnsdóttur í Cannes
Fagnað var á göngum hátíðarhallarinnar hér í Cannes þegar Stephen Frears, formaður dómnefndar, tilkynnti að gullpálminn, aðalverðlaun kvikmyndahátíðarinnar í færi í hendur rúmenska leikstjórans Cristian Mungiu fyrir myndina 4 Luni, 3 Saptamini si 2 Zile (4 mánuðir, 3 vikur og 2 dagar). Á göngunum hímdu nefnilega blaðamenn hvaðanæva að úr heiminum og fylgdust með framvindu mála í nærliggjandi sal á sjónvarpsskjáum.

Það kom kannski ekki mikið á óvart að myndin, sem er sú þriðja úr smiðju leikstjórans, skyldi hafa staðið uppi sem sigurvegari á hátíðinni. Hún var þriðja myndin í keppninni sem sýnd var á hátíðinni og síðan þá hefur hún verið efst eða ofarlega á lista spámanna og gagnrýnenda yfir bestu myndir hátíðarinnar. Hin myndin sem einnig þótti sigurstrangleg var No Country For Old Men þeirra Coen bræðra. Þegar ekkert sást til bræðranna á rauða dreglinum fyrir lokaathöfnina þótti strax líklegt að þeir fengju ekki annan gullpálma í safnið sitt í þetta sinn.

Dómnefndin sat fyrir svörum blaðamanna um niðurstöðu sína að lokinni verðlaunaafhendingu. Frears sló á létta strengi sem áður og sagði leikkonuna Maggie Cheung (einn liðsmann dómnefndar) hafa slegið sig í andlitið þegar þau voru að reyna að komast að niðurstöðu. Hann taldi blaðamenn trúlega þreytta á að heyra því sífellt básunað hve vel samstarfið hefði gengið.

Dómnefndin var talsvert spurð út í ástæðu þess að Coen bræðra myndin skyldi ekki hafa hlotið gullpálmann og einnig hvers vegna spænski leikarinn Javier Bardem hefði ekki verið verðlaunaður fyrir leik sinn í myndinni. Frears svaraði því á einfaldan hátt: „Allar myndirnar í keppninni voru góðar og allir leikararnir stóðu sig vel.”

Tyrkneski rithöfundurinn og Nóbelsverðlaunahafinn Orhan Pamuk svaraði svo aðspurður um í hverju gæði 4 Luni, 3 Saptamini si 2 Zile væru fólgin: „Þetta er alveg ótrúlega falleg mynd og maður naut hverrar sekúndu við að horfa á hana. Við vorum næstum öll á einu máli um, að þetta væri besta mynd hátíðarinnar.”

4 Luni, 3 Saptamini si 2 Zile gerist í Rúmeníu seint á níunda áratugnum. Sagan segir frá tveimur vinkonum sem leita allra leiða til að koma annarri þeirra í ólöglega fóstureyðingu. Löng skot einkenna myndina og eru hennar aðal sjarmi auk aðalleikkonunnar, Anamaria Marinca, sem heldur myndinni uppi með mögnuðum en hófstilltum leik. Aðdráttarafl myndarinnar felst ekki síður í þeirri yfirvofandi eymd sem áhorfandinn skynjar allan tímann án þess að verið sé að velta sér uppúr því dapurlega.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Hafðu stjórn á tilfinningum þínum þótt eitthvað verði til að róta upp í þeim. Einhver langt í burtu hjálpar þér með viturlegum ráðum, leiðbeiningum eða bænum.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
2
Torill Thorup
3
Sofia Rutbäck Eriksson
4
Solja Krapu-Kallio
5
Sarah Morgan
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Hafðu stjórn á tilfinningum þínum þótt eitthvað verði til að róta upp í þeim. Einhver langt í burtu hjálpar þér með viturlegum ráðum, leiðbeiningum eða bænum.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
2
Torill Thorup
3
Sofia Rutbäck Eriksson
4
Solja Krapu-Kallio
5
Sarah Morgan