eftir Birtu Björnsdóttur
Kvikmyndahátíðinni í Cannes lýkur í kvöld þegar níu manna dómnefnd afhentir Gullpálmann fyrir bestu mynd hátíðarinnar. Alls koma 22 myndir til greina en þær hafa verið sýndar hér í Cannes síðan þann 16. maí síðastliðinn þegar hátíðin hófst.
Ýmsum hefur verið spáð sigri í kvöld en nöfn Coen bræðranna Joel og Ethan og rúmanska leikstjórans Cristian Mungiu hafa oftast verið nefnd í því samhengi.
Alþjóðleg samtök kvikmyndagagnrýnenda velja ár hvert bestu mynd hátíðarinnar daginn fyrir afhendingu Gullpálmans. Að þeirra mati var mynd Mungius best, en hún heitir 4 Luni, 3 Saptamini si 2 Zile (4 mánuðir, 3 vikur og 2 dagar). Hvort það geri myndina líklegri til sigurs í kvöld verður bara að koma í ljós.
Auk þess að veita Gullpálmann verða veitt verðlaun fyrir bestan leik og bestu leikstjórnina, svo fátt eitt sé nefnt.
Það er ekki laust við að nokkurrar þreytu gæti hér í Cannes á síðustu metrum hátíðarinnar. Á föstudag og laugardag mátti víða sjá ferðalanga með pakkaðar töskur á leið á flugvöllinn eftir dvölina hér og líklegt að enn fleiri haldi til síns heima í dag, þrátt fyrir að keppninni ljúki ekki formlega fyrr en í kvöld.
Það eru ekki bara gestir sem eru farnir að láta á sjá eftir sólskinið, andvökunæturnar og upplifunina hér á hátíðinni. Veitingahúsastarfsmenn og verslunareigendur hafa staðið vaktina síðan 16. maí og ekki laust við að sérstaklega þeir fyrrnefndu séu orðnir heldur glaseygir eftir þjónustu við skemmtanaglaða hátíðargesti.