Bretar halda upp á það á morgun, að 40 ár eru liðin frá því tímamótaplata Bítlanna, Sgt. Pepper's Lonely Hearts Club Band, kom út þar í landi. Meðal annars mun breska ríkisútvarpið, BBC, sýna nýja heimildarmynd um gerð plötunnar og þar flytja nokkrar kunnar hljómsveitir lög af plötunni í nýjum útsetningum.
Sgt. Pepper's kom út 1. júní 1967 en þetta var áttunda breiðskífa Bítlanna. Í tilefni af útgáfuafmælinu verður haldið málþing í háskólanum í Leeds síðar í þessum mánuði þar sem fræðimenn velta fyrir sér þeim áhrifum, sem platan hafði á listir og menningu.
„Í stuttu máli var þetta þýðingarmesta plata þýðingarmestu hljómsveitarinnar," segir Simon Warner, sem skipuleggur málþingið. „Þetta voru tímamót í sögu popptónlistarinnar. Platan var svo litrík og margbrotin -- og þetta ótrúlega marglita umslag endurspeglar innihaldið."
Hljóðupptökumaðurinn Geoff Emerick, sem stýrði upptökunum á plötunni, hefur tekið upp nýjar útgáfur á lögunum með sömu fjögurra rása upptökutækjunum og notuð voru í Abbey Road hljóðverinu árið 1967. Lögin verða flutt í heimildarmynd BBC og meðal þeirra sem flytja Bítlalög þar eru Oasis, The Killers, Kaiser Chiefs, The Fratellis, Travis, Razorlight og James Morrison.