Lag húsvíkingsins Arngríms Arnarsonar, Sonur hafsins, í flutningi hljómsveitarinnar Ljótu hálfvitanna, varð hlutskarpast í sjómannalagakeppninni á Rás 2, en úrslitin voru kunngerð í dag. Á fréttavefnum skarpur.is segir að húsvíkingar þekki þetta lag Agga mæta vel. Hann hefur sjálfur flutt það við ýmis tilefni og síðar Ljótu hálfvitarnir.
Textinn við lagið fjallar um ungan „ættlera” í sjómannafjölskyldu sem er að afsaka það að hafa ekki viljað feta í fótspor pabba og afanna og stíga ölduna eins og þeir gerðu, pilt sem hafnaði fleyi og fögrum árum en kaus fremur að taka sér gítar í hönd.
Og í textanum lýsir söngvarinn þeirri von sinni að kannski eigi hann nú eftir að semja vinsælan sjómannavals, þannig að amma geti orðið stolt af honum, ekki síður en hetjum hafsins.
Ljótu hálfvitarnir stjórna Hátíð hafsins í íþróttahöllinni á Húsavík annað kvöld.