Fjölmiðlafólk hafði í gær tekið sér stöðu við Century-fangelsið í Los Angeles í Bandaríkjunum, en þangað á París Hilton að mæta til afplánunar 23 daga varðhalds ekki síðar en á þriðjudaginn.
Vinir Parísar héldu henni kveðjuhóf í síðustu viku, áður en hún fer í fangelsið, til að reyna að gleðja hana.
Caroline D'Amore, sem hefur verið vinkona Parísar síðan þær voru börn, sagði: „Við héldum spá partí heima hjá henni. Við fórum öll þangað til að vera hjá henni. Hún er mjög vongóð.“
En annar vinur Parísar segir hana dauðskelkaða yfir því að fara í fangelsið. „Hún brestur oft í grát vegna þess að hún getur hreinlega ekki horfst í augu við það og staðið undir álaginu af öllu sem hefur gerst. Hún á erfitt með að þola hvernig fólkið í kringum hana hefur fjarlægst og vill ekki koma nálægt henni.“
París er hætt við að áfrýja dómnum og mun mæta til afplánunar í Century-fangelsið á næstu dögum. Klefafélagi verður kona sem situr inni fyrir ofsaakstur og var valin sérstaklega með tilliti til þess að vera ólíkleg til að reyna að græða á París.