Breska ríkisútvarpið BBC hefur sýnt myndband af einhverju dýri á sundi og kemur fram, að Breti að nafni Gordon Holmes hafi tekið myndskeiðið á Loch Ness vatninu í Skotlandi. Myndskeiðið hefur nú farið eins og eldur í sinu um netið og velta margir því fyrir sér hvort þarna sé Loch Ness skrímslið lifandi komið en sérfræðingar segja að dýrið sé væntanlega otur eða jafnvel selur.
Frá því Robert Kenneth Wilson tók mynd af einhverju sem líktist sæskrímsli í vatninu árið 1934 hafa margir ferðamenn og vísindamenn talið sig hafa séð slíka skepnu þar. Þá hafa verið gerðir út margir vísindaleiðangrar til að rannsaka vatnið.
Orðrómurinn um Loch Ness skrímslið hefur gert það að verkum að vatnið er afar vinsæll ferðamannastaður og njóta íbúar á svæðinu góðs af.