Ævintýramyndin Pirates of The Carribean – At Worlds End er vinsælasta myndin í íslenskum kvikmyndahúsum, aðra vikuna í röð. Rúmlega átta þúsund manns sáu sjóræningjana um helgina, og alls hafa því um fjörutíu þúsund manns séð Johnny Depp og félaga í bíó hér á landi.
Breska hrollvekjan 28 Weeks Later stökk beint í annað sætið, en hana sáu rúmlega 1.500 manns fyrstu sýningarhelgina. Það heyrir til tíðinda að mynd sem ekki er bandarísk að uppruna komist svo hátt á bíólistanum, en trúlega hafa góðir dómar um myndina haft sitt að segja. Þannig gaf Heiða Jóhannsdóttir, kvikmyndagagnrýnandi Morgunblaðsins, myndinni fjórar stjörnur af fimm mögulegum og sagði hana meðal annars eina eftirminnilegustu hryllingsmynd síðustu ára, og tímabært fráhvarf frá ríkjandi klisjum greinarinnar.
Spider-Man 3 er ennþá nokkuð vinsæl hér á landi þrátt fyrir að fimm vikur séu síðan myndin var frumsýnd. Kóngulóarmaðurinn situr í fjórða sætinu, en tæplega 800 Íslendingar sáu hann leika listir sínar í íslenskum kvikmyndahúsum um helgina.
Þá nær gamanmyndin Delta Farce þeim merkilega árangri að komast í sjötta sætið eftir fyrstu helgina. Rúmlega 500 manns sáu myndina þrátt fyrir að hún hafi fengið mjög slæma dóma. Sæbjörn Valdimarsson, kvikmyndagagnrýnandi Morgunblaðsins, gaf myndinni aðeins eina stjörnu og talaði m.a. um ómerkilega samsuðu suðurríkjafyrirlitningar, hommafóbíu og múslimabrandara.