Lögregla mun nú vera á leið að heimili Paris Hilton í Hollywood til að sækja hana og færa fyrir dómara en Paris átti að koma fyrir dómara klukkan fjögur í dag að íslenskum tíma. Áður hafði verið greint frá því að hún hefði fengið leyfi til að taka þátt í réttarhöldunum símleiðis en það virðist ekki hafa verið með leyfi Michael Sauer. Þetta kemur fram á fréttavef SKY.
Það hefur verið harðlega gagnrýnt í Bandaríkjunum að lögreglustjóri L.A. umdæmis skuli hafa leyst Hilton úr haldi í gærmorgun og heimilað henni að ljúka afplánun fangelsisdóms sína í stofufangelsi á heimili sínu en í dómnum yfir Hilton var sérstaklega tekið fram að hún mætti ekki afplána dóminn í stofufangelsi.
Til stendur að dómarinn fjalli um þá kröfu saksóknara að Hilton verði færð aftur í fangelsið og að gerð verði grein fyrir því hvaða forsendur lágu að baki þeirri ákvörðun að senda hana heim eftir að hún hafði einungis afplánað rúmlega þrjá sólarhringa af 23 daga fangelsisdómi.
Lee Baca, lögreglustjóri varði ákvörðun sína í dag og sagði hana tekna að ráði lækna. Hann vildi hins vegar ekki greina frá því hvað ami að Hilton en sagði að ekki hefði verið ráðlegt að halda henni lengur þar sem hætta hafi verið á að það yrði til Þess að ástand hennar versnaði.
„Það er ekki ráðlegt að halda fólki sem á við hennar vandamál að stríða í fangelsi í lengri tíma þar sem hætt er við að vandinn versni," sagði hann. „Ég vil koma því á framfæri við þá sem þola ekki frægt fólk að það er ekki réttlátt að þeim sé refsað af meiri hörku en almenningi."