Samkvæmisljónynjan Paris Hilton ætlar ekki að áfrýja ákvörðun dómara um að senda hana aftur í fangelsi eftir stutta vist í stofufangelsi á heimili sínu. Í yfirlýsingu sem Hilton sendi á slúðurvefinn TMZ.com þar sem segir að hún hafi ákveðið, eftir að hafa ráðfært sig við lækna sína, að hún muni ljúka fangelsisvistinni möglunarlaust.
Mikla athygli vakti þegar dómari ákvað á föstudags að engin gild ástæða væri fyrir því að leyfa Hilton að ljúka afplánun í stofufangelsi á heimili sínu. Hún var leidd grátandi og hrópandi úr réttarsalnum og aftur í fangelsi.
Annan tón kveður þó við í yfirlýsingu Hilton þar sem hún segir fangelsisvistina það lang-erfiðasta sem hún hafi þurft að ganga í gegn um, en að hún hafi nýtt tímann til að íhuga og að hún hefði lært verðmæta lexíu af raunum sínum.
Enn er óvíst hve lengi Hilton mun dúsa í fangelsi, hún var dæmd í 45 daga fangelsi, sem að öllu jöfnu hefði verið stytt í 23 daga vegna góðrar hegðunar. Stofufangelsisvistin átti hins vegar að vera 40 dagar.