Stærsta listsýning heims, Feneyjartvíæringurinn á Ítalíu, hófst nú um helgina en tugir þúsunda gesta sækja sýninguna. Steingrímur Eyfjörð er fulltrúi Íslands í ár og er sýning hans sett upp í flóðakjallara á besta stað í borginni.
Stærstur hluti sýningarinnar fer fram á tveimur afmörkuðum sýningarsvæðum í borginni en að auki er sýningum dreift víðar um borgina. Sýningin er haldin annað hvert ár og stendur nú yfir í 52. sinn. Sýningar eru afar fjölbreyttar enda eru þátttakendur rúmlega eitt hundrað og koma frá 76 löndum.
Verk Steingríms Eyfjörðs, /Lóan er komin/, vakti strax athygli frá fyrsta degi og er talið að á milli 500-600 manns hafi sótt sýninguna á opnunarkvöldi hennar. Tónlistarkonan Ólöf Arnalds og hljómsveitin Ghostdigital sáu um að skemmta gestum ásamt því að ýmsir þjóðþekktir íslendingar heiðruðu listamanninn með nærveru sinni. Aðstandendur sýningarinnar eru himinlifandi yfir góðum viðbrögðum. Að sögn Hönnu Styrmisdóttur, sýningarstjóra, hafa viðbrögð við verkum Steingríms verið afar góð og aðsóknin frábær. Hún segir að íslenski sýningarskálinn hafi fengið mikið lof.
Listamaðurinn fer ótroðnar slóðir í verki sínu en mikla athygli vekur samstarf hans við huldufólk og hefur hann til að mynda komið upp afar veglegri aðstöðu fyrir alíslenska kind. Ekki er þó á færi allra að sjá kindina því hana keypti listamaðurinn af huldumanni og er kindin því upphaflega af öðrum heimi er svo mætti að orði komast.
Það má því segja að þessi nálgun listamannsins sé fullkomlega í takt við yfirskrift hátíðarinnar í ár; „að hugsa með skynfærunum og finna með huganum" (Think with the Senses – Feel with the Mind).
Sýningin stendur yfir frá 10. júní til 21. Nóvember.