Fregnir herma að Britney Spears og Kevin Federline séu að ná sáttum og horfur á að þau taki saman á ný. Britney var í fríi í Mexíkó fyrir skömmu, og hafði tímaritið New Weekly eftir heimildamanni að hún hafi verið hamingjusamari en nokkru sinni fyrr, og hafi hún sagt að það væri vegna þess að hún og Kevin væru smátt og smátt að þokast nær nýju sambandi.
Britney og Kevin eiga saman tvo drengi, en eftir að þau slitu samvistir í nóvember seig hratt á ógæfuhliðina hjá Britney. Hún sleppti fram af sér beislinu í skemmtanalífinu, og fór að lokum í áfengismeðferð eftir að hafa snoðað sig.
Gengið var frá skilnaði Britneyjar og Kevins í mars, og eru vinir þeirra agndofa yfir fréttum um að þau séu að reyna að ná sáttum og ætli að endurnýja hjónabandið drengjanna vegna.