Marta Guðmundsdóttir náði um helgina takmarki sínu um að ganga þvert yfir Grænlandsjökul til styrktar krabbameinsrannsóknum og verður efnt til sérstakrar móttöku henni til heiðurs í kvöld hjá Krabbameinsfélaginu. Marta var stödd í bænum Tassilaq á Austur-Grænlandi í gær og var að undirbúa heimförina. "Ég get einhvern veginn ekki áttað mig á því að ég hef náð takmarkinu, gengið þvert yfir risann," skrifar hún í dagbók sína. "Hugurinn þarf eflaust að jafna sig og ég að ná áttum. Þetta er ótrúlega skrýtið en samt svo gott að vera komin á leiðarenda. Líður vel, er þreytt og aum og sviðin í andlitinu, öll marin og blá, en glöð og pínu montin!"
Móttakan í kvöld er kl. 20.30 í Skógarhlíð 8 og eru allir velkomnir.