Vilhjálmur Bretaprins segist vonast til þess að á tónleikunum sem verða haldnir til minningar um móður hans, Díönu prinsessu, gefist tækifæri til þess að minnast allra þeirra „frábæru verka“ sem móðir hans afrekaði á sinni ævi.
Í viðtali við breska ríkisútvarpið BBC sögðu bræðurnir Vilhjálmur og Harry Bretaprinsar frá því hvað þeir hlakka mikið til tónleikanna sem fram fara 1. júlí nk.
Þeir ræddu jafnframt um móður sína á hjartnæman hátt, en þeir sögðu m.a. að það liði ekki sá dagur sem þeir hugsi ekki til hennar.
Á tónleikunum verður þess minnst að 10 ár eru liðin frá dauða Díönu.
Tónleikarnir fara fram á Wembley íþróttaleikvanginum og hafa prinsarnir komið að skipulagningu þeirra. Meðal flytjenda má nefna Tom Jones, P Diddy og Elton John.