Bandaríska netfyrirtækinu Amazon.com Inc. hafa borist yfir milljón pantanir í nýjustu bókina um Harry Potter sem kemur út í júlí. Er það síðasta bókin um galdrastrákinn knáa sem breski rithöfundurinn J.K. Rowling hefur gert ódauðlegan í huga aðdáenda um allan heim.
Þrátt fyrir að svo margir vilji eignast bókina „Harry Potter and the Deathly Hallows" þá mun stærsta netbóksala á netinu ekki hagnast á sölunni. Þetta kom fram á aðalfundi Amazon.com í dag.
Skýrist það af því að Amazon veitir verulegan afslátt á uppsettu verði bókarinnar auk þess sem fyrirtækið tryggir að bókin berist kaupendum á réttum tíma og kaupendur sleppa við að greiða sendingarkostnað.