Rithöfundurinn Salman Rushdie, sem lifði í felum um árabil eftir morðhótanir frá múslimum, var aðlaður af Bretlandsdrottningu í dag. Bók hans Söngvar Satans móðgaði múslima víða um heim og í kjölfarið var sett lausnargjald til höfuðs honum árið 1989.
Frá því að hinn indversk ættaði rithöfundur snéri aftur á sjónarsviðið árið 1999 hefur hann ekki síður verið umdeildur. Hann er einlægur efahyggjumaður og studdi m.a. athugasemdir leiðtogans Jack Straw um klæðaburð múslímskra kvenna og hefur varað við alræðishyggju Íslam.
Rushdie fæddist í Mumbai árið 1947 og er sonur farsæls viðskiptamanns. Hann er menntaður á Englandi og las sögu við háskólann í Cambridge.
Fyrsta bók Rushdie frá árinu 1975, Grimus, var ekki vel tekið, en önnur bók hans, Miðnæturbörn, sló í gegn. Það var fjórða bókin hans, Söngvar Satans, sem var fordæmd í hinum íslamska heimi og varð til þess að Ayatollah Khomeini, erkiklerkur Írans, fyrirskipaði að Rushdie skyldi líflátinn árið 1989. Árið 1998 lýsti ríkisstjórn Íran því yfir að hún ætlaði ekki að framfylgja dómnum.
Sir Rushdie sagðist hæstánægður og auðmjúkur gagnvart heiðrinum sem honum væri sýndur og þakklátur fyrir að verk hans væru viðurkennd á þennan hátt.