Barnaspítali Hringsins er fimmtugur í dag og í tilefni afmælisins verður öllum börnum boðið í afmælisveislu á lóðinni við Barnaspítala Hringsins frá kl. 12.00-15.00 í dag. Hvetja starfsmenn spítalans foreldra til að mæta með börn sín í afmælisveisluna en ýmsir góðir gestir munu koma á svæðið. Má þar nefna Skoppu og Skrítlu auk fjölda annarra.
Í Morgunblaðinu í dag er fjallað ítarlega um starfsemi spítalans en þar kemur fram að spítalinn er kenndur við kvenfélag sem á ríkan þátt í sögu þess og uppbyggingu, en Hringurinn hefur alla tíð stutt við barnadeild.
Ýmsir gestir koma á afmælishátíð Barnaspítalans í dag. Skoppa og Skrítla koma í heimsókn ásamt Lalla töframanni. Grillmeistarinn býður upp á pylsur og drykki og Hringskonur gefa afmælisköku. Þá verður Hringur bangsi á svæðinu og leiktæki, einnig verður andlitsmálun á staðnum. Stuðmenn sjá um tónlistina og Felix Bergsson verður kynnir.
Bangsaspítalinn verður einnig starfræktur á Barnaspítalanum þennan dag. Á Bangsaspítalann, sem rekinn er af læknanemum, geta börn á aldrinum 3-5 ára komið með veika bangsa eða dúkkur til læknis.