Söngkonan Björk fékk sl. mánudag innblástursverðlaun tímaritsins Mojo á árlegum tónlistarverðlaunum þess. Söngkonan þakkaði Bretum það að kunna að meta sig og sagði þá hafa verið fyrstu þjóðina sem hafi skilið tónlist sína. „Á Íslandi, meira að segja á unglingsárum mínum, fannst þeim ég vera frekar undarleg".
Það var söngkonan Amy Winehouse sem þótti sigursælust á hátíðinni, en hún hlaut verðlaun fyrir besta lagið, Rehab, sem kom út á síðasta ári, auk þess sem hún var valin kona síðasta árs.
Amy vakti nokkuð umtal á hátíðinni, hún mætti tveimur tímum of seint á og náði ekki að taka við öðrum verðlaununum. Ræða hennar þótti svo heldur stutt þegar hún fór loks á svið, en hún blótaði, sagðist ekki vera mjög góð í að halda ræður og sagðist svo ætla að verða drukkin.
Meðal annarra sem fengu verðlaun voru jálkarnir Ike Turner, Ozzy Osbourne og Alice Cooper. Arcade Fire var valin besta tónleikasveitin, gítarleikarinn Peter Green fékk Les Paul verðlaunin en hljómsveitin Stooges hlaut verðlaun fyrir besta ævistarfið.