Gamanmyndin Evan Almighty og spennumyndin 1408 fengu mesta aðsókn í norður-amerískum kvikmyndahúsum um helgina. Framhaldsmynd um hin fjögur fræknu, sem var í efsta sæti aðsóknarlistans um síðustu helgi, fór niður í það þriðja nú.
Tekjur af Evan Almighty námu rúmum 32 milljónum dala. Myndin er framhald af myndinni Bruce Almighty, sem Jim Carrey lék í árið 2003, og fjallar um fréttamanninn Evan, leikinn af Steve Carell, sem Guð, leikinn af Morgan Freeman, skipar að byggja örk.
Myndin 1408 byggir á sögu eftir Stephen King en þar leikur John Cusack rithöfund, sem er frægur fyrir að finna eðlilegar skýringar á að því er virðist yfirnáttúrulegum atburðum.
Gamanspennumyndin Ocean's 13 var í 4. sæti og gamanmyndin Knocked Up var í fimmta sæti. Sjóræningjamyndin Pirates of the Caribbean: at World's End var í 6. sæti.
Tölvuteiknimyndin Surf's Up, sem fjallar um mörgæsir, fór niður í 7. sæti og Shrek the Third fór niður í 8. sæti. Unglingamyndin Nancy Drew, með Emmu Roberts, frænku leikkonunnar Juliu Roberts, er í 9. sæti og myndin A Mighty Heart, sem fjallar um morðið á blaðamanninum Daniel Pearl í 10. sæti en þar leikur Angelina Jolie ekkju Pearls.