Þeir Björgvin Halldórsson og Ragnar Bjarnason hljóðrituðu sinn fyrsta dúett í gær. Lagið sem varð fyrir valinu nefnist Barn og er eftir Ragnar sjálfan, við ljóð Steins Steinars.
Lagið er eitt fjölmargra sem prýða munu væntanlega plötu í flokki Íslandslaga, þá sjöundu í röðinni.
„Við Raggi höfum aldrei áður sungið saman á plötu og í raun bara aldrei sungið saman sem er í raun alveg ótrúlegt. Það má því segja að þetta hafi verið söguleg stund í gær," sagði Björgvin í samtali við Morgunblaðið. Og hann varð ekki fyrir vonbrigðum með dúettinn.
„Það var auðvitað bara æðislega gaman að syngja með Ragga. Við vorum einmitt að furða okkur á því hvers vegna við hefðum ekki gert þetta fyrr."
Nánar er fjallað um þetta í Morgunblaðinu í dag.