Danskur næringarfræðingur gefur Hróarskelduförum góð ráð til þess að minnka skemmandi áhrif of mikils áfengismagns, lítils svefns og óhollra máltíða. Ráðin eru ekki síður góð fyrir aðrar langar útilegur í sumar og lykilorðin eru vatn, næringarríkur morgunmatur og prótein í kvöldmat.
Það er engin ástæða til þess að skemma sig meira en nauðsynlegt er, segir næringarfræðingurinn Per Brændgaard í viðtali við fréttavef Politiken. Fyrsta ráð Brændgaard er að mæta úthvíldur til leiks og drekka mikið vatn áður en lagt er af stað. Vatn er lykilatriði, sérstakleg ef áfengisdrykkjan byrjar strax í morgunsárið. Ávaxtasafi og gosdrykkir eru líka í lagi - bara svo lengi sem fólk drekkur eitthvað annað en bjór.
Morgunmatur sem samanstendur af ávöxtum, grófu brauði og ávaxtasafa er góður vítamíngjafi og heldur maganum gangandi, segir næringarfræðingurinn og hrekur goðsögnina um að líkaminn þarfnist salts í timburmönnum - vatn er allt sem þarf.
Kjöt og annar próteinríkur matur er nauðsynlegur þegar áfengi er annars vegar og forðast skal hraðmeltanleg kolvetni rétt áður en partýið byrjar fyrir alvöru. Kolvetnisríkur matur nýtist þó ágætlega til þess að koma líkamanum í gang eftir lítinn svefn, segir Per Brændgaard að lokum.